Saman í takt
Við sem stundum nám og störfum í Skarðshlíðinni erum svo heppin að vera í byggingu sem hýsir leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, íþróttahús og bókasafn. Í þessu felast ótrúlega mörg tækifæri.
Strax frá upphafi þegar farið var að skipuleggja skóla í Skarðshlíðarhverfinu kom upp hugmynd um einn heildstæðan skóla, hjarta hverfisins þar sem einstaklingur gæti stundað nàm sitt frá 15 mánaða aldri til 16 ára. Hugmynd um að skólinn væri með heildstæða nálgun og öfluga samvinnu.
Skólastigin opnuðu á misjöfnum tíma en fljótlega eftir að stjórnendur voru allir komnir til starfa mynduðu þau teymi utan um samstarf. Strax frá upphafi var ljóst að hugmyndir þeirra og metnaður féll mjög vel saman. Mikil samstaða ríkir hjá þeim um mikilvægi þess að samþætta starf skólanna og nýta þau miklu tækifæri sem samvinna og samþætting bíður upp á fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk. Hér er vilji til að sjá faglegt, flott, framsækið og skapandi skólastarf þar sem allir geta blómstrað og nýtt styrkleika sína hvar sem er í húsinu. Vilji til að sjá að hér sé kraumandi orka sköpunar og lista, fjölbreytt skólastarf og mikil gleði ríki í starfsmannahópnum sem smitist í börn og foreldra. Hér á að vera gaman að vera.
Hugmyndir sem þegar eru komnar á blað og eru jafnvel komnar til framkvæmda:
- Sameiginlegar söngstundir
- Tónlist í matsölum – t.d. mismunandi tónlistarstefnur spilaðar
- Val á unglingastigi í leikskólanum, jafnvel skólahljómsveit í tónlistarskólanum
- Sameiginlegur kór fyrir elstu börn leikskóla og yngstu börn í grunnskóla
- Lestrar átak þar sem grunnskólabörn lesa fyrir leikskólabörnin
- Fjölgreindarleikar og sameiginlegar þemavikur sem allir tækju þátt í.
- Vinabekkir – heimastofur í leikskóla eiga vinabekki í grunnskóla sem heimsækja hvort annað reglulega.
- Tónlistarskólinn með kennslu fyrir leik- og grunnskólabörn á skólatíma
- Sameiginleg afnot af rímum innan allrar byggingarinnar og á skólalóð
- Nemendur tónlistaskólans flytji tónlist á viðburðum í skólunum
Innan byggingarinnar eru dýrmæt tækifæri til gera eitthvað magnað og skemmtilegt en það er ekki nóg. Mannauðurinn er það sem skiptir miklu máli til að samstarfsverkefni gangi upp. Það er mikilvægt að starfsfólk temji sér jákvætt og skapandi hugarfar gagnvart þessu verkefni, hugsi í lausnum, gefi sér tíma til að prófa sig áfram, leyfi sér að mistakast, heppnast og fagna litlum og stórum sigrum.
Búið er að ráða inn lykilstarfsmann, Helenu Guðjónsdóttur, til að halda utan um samstarfsverkefnin, vera með í hugmyndavinnu og fleira. Hún er listræn, skapandi, hugmyndarík og nýtist öllum skólastigum t.d. kennir tónmennt í grunnskólanum, sér um tónlistastundir í leikskólanum og forskóla í tónlistarskólanum auk þess að vera með í þemaverkefnum og fleiru. Hún er þessi lykilmanneskja sem starfsfólk getur leitað til með hugmyndir eða kemur með hugmyndir til annarra. Hún ásamt stjórnendum verður með yfirsýn yfir hvað verkefni eru í gangi og tengir fólk saman.
Lykilatriðið sem við í Skarðshlíð viljum er að við vinnum sem ein heild og nýtum mannauð og styrkleika hvers skólastigs fyrir sig. Eins og heiti verkefnisinns gefur svo vel til kynna, við viljum vinna SAMAN Í TAKT.