Karellen

Síðustu 30 ár a.m.k. hefur mikil áhersla verið á að börnum sé strax frá unga aldri boðið markvisst upp á leiki og verkefni í leikskólum til örvunar hljóðkerfis- og málmeðvitundar þeirra og að þeim sem virðast eiga í erfiðleikum sé sinnt sérstaklega. Leikskólaárin eru því sérlega mikilvæg fyrir snemmtæka íhlutun. Góður málþroski skiptir miklu máli fyrir almennan þroska. Til þess að halda vel utan um málþroska leikskólabarna í íslensku eru reglulega gerðar skimanir á stöðu þeirra svo hægt sé að grípa inn í með viðeigandi hætti. Í leikskólum Hafnarfjarðar eru notaðar skimanirnar TRAS, Orðaskil og HLJÓM-2 og er miðað við íslenskan málþroska.


Tras

TRAS- efnið var þróað og samið af sérfræðingum í sérkennslu og talmeinafræði í Noregi og er skráningaraðferðin almennt notuð í leikskólum á Norðurlöndunum.
Leikskólakennarar, sem eru með þar til skilin réttindi, skrá á hálfs árs fresti málþroskaferli tveggja til fimm ára gamalla barna með því að fylla út skráningarlista. Spurningar á skráningarlistanum eru byggðar á niðurstöður rannsókna um þróun málþroska. Góður málþroski skiptir miklu máli fyrir andlegan þroska barna, félagslega líðan og seinni lestrartileinkun. Með TRAS skráningunni er hægt að skima eftir frávikum í mál- og félagsþroska barnanna með fyrirbyggjandi íhlutun í huga.

Orðaskil

Prófið byggir á orðaforðagátlista fyrir börn á aldrinum eins og hálfs til þriggja ára og fylla foreldrar út listann. Prófinu er ætlað að mæla orðaforða barnanna og hvort þau hafa náð valdi á beygingarkerfi og setningagerð málsins. Aldursviðmið fylgja prófinu, en með samanburði við þau er skorið úr um hvort málþroski barna mælist innan eðlilegra marka miðað við jafnaldra.

HLJÓM-2

HLJÓM-2 er aldursbundin skimun sem er lögð fyrir börn í elsta árgangi leikskólans til að meta hljóðkerfis- og málmeðvitund þeirra í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu fyrir síðari lestrarerfiðleika. Slök hljóðkerfis- og málvitund er talin aðalorsök lestrarvanda hjá 88% barna (9 af hverjum 10 börnum). Þættir sem er skimað eftir eru rím, samstöfur, samsett orð, orðhlutaeyðing, hljóðtenging og hljóðgreining. Skimunin byggir upp á verkefnum sem barnið gerir með leikskólakennara með þar til skilin réttindi að hausti. Niðurstöður eru reiknaðar út frá nákvæmum aldri barnsins. Börn með slaka færni fá markvissa þjálfun í þeim þáttum og gera svo verkefnið aftur á vorönn.

© 2016 - 2023 Karellen