Skarðshlíðarleikskóli vinnur að því að innleiða Uppeldi til ábyrgðar.
Hugmyndafræði
Diane Gossen er kanadísk og brautryðjandi Uppeldis til ábyrgðar.
Hugmyndafræði uppeldis til ábyrgðar byggist á því að einstaklingurinn geti tekið sjálfstæðar, siðferðilegar ákvarðanir varðandi eigin hegðun þegar hann er laus undan skömmum, hótunum, sektarkennd eða væntingum og loforðum um umbun og að hann fái tækifæri til að meta lífsgildi sín (Gossen, 2004).
Uppeldi til ábyrgðar miðar að því að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfstjórn barna og þjálfa þau í að ræða um tilfinningar og átta sig á þörfum sínum. Börnin fá þjálfum í sjálfstjórn og sjálfsaga og eru styrkt í því að læra af mistökum sínum. Mikilvægt er að skapa skilyrði til að barnið geti lagfært mistök sín, snúið aftur til hópsins og vaxið við hverja raun. Barnið fær tækifæri til að takast á við mistök sín á uppbyggilegan hátt, skoða hvað það var sem það gerði rangt og hvað það hefði getað gert öðruvísi. Það lærir að bæta fyrir mistök sín og finnur hvernig það styrkist af því. Þetta næst ekki ef barnið er skammað eða niðurlægt. Áhersla er lögð á að þjálfa börn í að skoða eigin hegðun og ræða um hvernig þau ætli að bregðast við sambærilegum aðstæðum næst í stað þess að gera sömu mistökin aftur. Við viljum þjálfa börn í því að vera þau sem þau vilja vera - en ekki bara geðjast öðrum.
Börnin og starfsfólk læra jákvæð og uppbyggjandi samskipti til að ýtir undir umhyggjusamt skólasamfélag.
Heilarannsóknir
Rannsóknir hafa sýnt fram á að rökhugsun og áætlanagerð fari fram í framheilanum eða ennisblöðum. Þegar einstaklingur sé undir óeðlilegu álagi nái hann ekki að virkja þann hluta heilans og þess vegna sé mikilvægt að draga úr ógnandi aðstæðum í námsumhverfi barna.
Hræðsla við skammir, sem og væntingar um umbun geti haft streituvaldandi áhrif á nemandann með þeim afleiðingum að hann nái ekki að einbeita sér.
Fimm grunnþarfir
Geðlæknirinn William Glasser setti fram kenningu um að allar manneskjur séu með meðfæddar fimm grunnþarfir. Til að vera lífsglöð, hamingjusöm og andlega heil, þurfum við reglulega að uppfylla þær.
Þessar þarfir eru:
- Öryggi (T.d. húsnæði, matur, föt, lífsafkoma)
- Tilheyra (T.d. ást, fjölskylda, vinir, samkennd)
- Áhrif (T.d. metnaður, sjálfsagi, sjálfstjórn, forysta)
- Frelsi (frá skyldum, sjálfstæði, frumleiki, sjálfstæði)
- Gleði (skemmtun, leikur, spenna, sköpunargleði, skopskyn)
Mikilvægt er að börn og fullorðnir læri að þekkja sínar þarfir og hvenær þarfir þeirra eru farnar að ganga á þarfir annarra.
Samskipti
Við teljum að það er mjög mikilvægt að við séum meðvituð um hvaða skilaboð við erum að senda frá okkur þegar við tölum við aðrar manneskjur. Þetta á við sama á hvaða aldri manneskjan er.
- Orð 10%
- Tónn 35 %
- Líkamstjáning og svipbrigði 55%
Hvernig þú segir það er mikilvægara en hvað þú segir.
Í samskiptum við börnin temjum við okkur þrenn atriði:
a. Já, ef ...
Starfsmaður fer að þjálfa sig í jákvæðum viðbrögðum við spurningum barns og segir já eins oft og hann getur. Ef hann getur ekki sagt hreint og beint já, segir hann já, ef ... eða já, þegar ... og lýsir þá þeim aðstæðum sem þurfa að vera fyrir hendi svo beiðni barnsins geti fengið jákvætt svar. Dæmi um þetta gæti verið: „Viltu lesa bók? Já, þegar ég er búinn að tala.” Þetta kemur þá í staðinn fyrir svarið: „Nei – ég er að tala.” Ef kennari segir nei, útskýrir hann af hverju hann segir nei og stendur við það.
b. Er þetta alveg nauðsynlegt?
Áhersla er á að fækka reglum. Það er gert með því að starfshópurinn spyr sig hvort ónauðsynlegar reglur séu í skólanum. Ef ekki er hægt með gildum rökum að rökstyðja nauðsyn reglu er hún lögð niður. Áhersla er á að spyrja spurninga um hvað það sé sem skipti raunverulegu máli til þess að börnin nái árangri og líði vel. Litið er svo á að ef skólinn er með margar óþarfar reglur sem skipta litlu máli, kannski ekki öðru en því að þetta hefur alltaf verið svona, ýtir það undir neikvæð samskipti og óþarfa árekstra.
Þetta þýðir ekki að þessar vinnuaðferðir hvetji til þess að allt sé leyfilegt og að börnunum sé leyft að vaða uppi með hvað sem þeim dettur í hug. Þvert á móti eru settar skýrar reglur um það sem ekki verður umborið í skólanum og skýrir verkferlar eru settir um það hvernig eigi að bregðast við slíkri hegðun. Um þetta er fjallað betur undir liðnum ófrávíkjanlegar reglur hér á eftir.
Bjóða val
Ef barn sýnir óæskilega hegðun eða hlustar ekki á manna t.d. Vill ekki fara í hlýja peysu undir regngallann (við þurfum þá náttúrulega spyrja okkur fyrst er nauðsynlegt að það sé í peysu undir) og svo er boðið val, viltu fara í þessa peysu eða þessa. Hér þurfum við að passa tóninn og líkamstöðuna. Bendið barninu á að það megi ráða hvort það fari í þessa peysu eða hina. Við þurfum líka stundum að setja okkur í spor barnsins – kannski er ástæða fyrir því að það vill ekki fara í peysu (klæjar undan henni/verður alltof þröngt) og reyna að finna lausn með barninu. Semja við það að ef það fer í þessa peysu núna að þá skulir þú biðja foreldrana um betri peysu.
Auðvitað er mikilvægt að hafa aldur og þroska barna í huga, börn eru t.d. ekkert endilega farin að skilja opnar spurningar/hv-spurningar. Né getu til að halda athygli lengi í samræðum.
Sáttmáli
Í upphafi skólaárs gera börn og kennarar á hverri heimastofu með sér sáttmála, velja mikilvæg lífsgildi í samskiptum. Fyrst er rætt um reglur, af hverju setjum við þær, eru reglur heima o.s.fv. Síðan er rætt um hvernig okkur vill líða í leikskólanum, hvernig við viljum hafa samskiptin á milli okkar, hvernig vinir við viljum vera o.s.fv. Öll börnin eru hvött til að koma með hugmyndir að reglum, þær skráðar niður og svo er sammælst um 3-5 reglur (fer eftir aldri og getu). Kennarar hjálpar börnunum svo að útbúa sáttmálan.
Til að auka skilning barnanna á innihaldi sáttmálans er hægt að vinna með dýpra með hvern lið. Segjum að einn liður í sáttmálanum hafi verið „Við erum góð við hvort annað.“ Þá spyrjum við eftirfarand:
- Hvernig finnum við… (að einhver er góður við okkur?)
- Hvernig heyrum við … (að einhver er góður við okkur?)
- Hvernig sjáum við …. (að einhver er góður við okkur?)
- (Að vera góður við einhvern) er:
- (Að vera góður við einhvern) er ekki:
Ófrávíkjanleg regla
Starfsmannhópurinn kemur sér saman um hvaða reglur séu ófrávíkjanlegar og skilgreinir hvaða hegðun er algjörlega óásættanleg. Þegar barn fer yfir þau mörk sem sett eru þarf starfsmannahópurinn að vera búinn að koma sér saman um hvernig brugðist er við þessari hegðun. Þessir vinnuferlar eiga að vera einfaldir og skýrir og nauðsynlegt er að allir starfsmenn þekki og kunni að bregðast við samkvæmt þeim. Markmiðið með þessum reglum er að tryggja öryggi og vinnufrið í skólanum og að vernda þann sáttmála sem hópurinn hefur komið sér saman um.
Skýrir verkferlar eru útbúnir fyrir úrlausnir agamála og er áhersla á að nemandinn læri af mistökum sínum, fái tækifæri til að bæta fyrir mistök sín og snúi síðan sterkari til baka til hópsins aftur. Markmiðið er að barnið styrkist og læri að takast á við mistök á ábyrgan og uppbyggilegan hátt. Áhersla er lögð á að barninu sé alltaf sýnd virðing og að komið sé fram við það af yfirvegun.
Frekari upplýsingar má finna á:
Facebooksíða Uppeldi til ábyrgðar
Grein í Netlu um Uppeldi til ábyrgðar