Karellen

Útivera: Í leikskólanum fara öll börn út að leika minnst einu sinni á dag.

Veikindi: Við gerum ráð fyrir að börn séu nægilega hress til að taka þátt í öllu starfi og þess vegna getum við ekki tekið á móti veiku barni eða barni sem er að veikjast. Ef barn veikist og fær hita, þarf það að dvelja heima þar til það hefur verið hitalaust í 1-2 sólarhringa. Fái barn smitandi sjúkdóm verður það að dvelja heima þar til smithætta er liðin hjá. Þetta er nauðsynleg ráðstöfun til að forðast útbreiðslu sjúkdóma í leikskólanum og sjálfsögð tillitsemi við önnur börn og starfsfólk. Innivera eftir veikindi miðast við einn dag og í samráði við starfsmenn. Við höldum börnum ekki inni til þess að koma í veg fyrir að þau veikist. Gott er fyrir starfsfólk leikskólans að fá upplýsingar um veikindi barnanna, hægt er að tilkynna veikindi í síma 527-7380 eða á Karellen.

Algengar sýkingar: Augnsýkingar geta verið tíðar í leikskólum þar sem nánd barna er mikil, þess vegna höfum við þá reglu hjá okkur að börn séu heima í einn sólarhring eftir að hafa fengið fyrsta skammtinn af augnmeðali við sýkingum. Það getur verið erfitt að hefta sýkingar ef börn eru að koma með sýkt augu í leikskólann.

Lyfjagjöf: Ef börn þurfa að taka lyf er mikilvægt að haga lyfjagjöfinni þannig að hún fari fram heima fyrir. Kennarar leikskólans mega ekki gefa börnum lyf nema það sé bráðnauðsynlegt. Undantekning er þó gerð ef um astmapúst er að ræða.

Ofnæmi/óþol: Ef barn er með fæðuóþol eða ofnæmi verða foreldrar/forráðamenn að skila inn læknisvottorði.

Fatnaður barnanna: Leikskólinn er vinnustaður barnsins sem tekur þátt í fjölbreyttum verkefnum á degi hverjum, jafnt inni sem úti. Biðjum við foreldra að taka tillit til þeirra þátta og sýna því skilning ef föt barna ykkar fái á sig matar- eða málningarslettur og ef útifatnaður fái á sig moldarslettur. Börn ykkar þurfa því þæginlegan fatnað sem þolir ýmis óhöpp líkt og hér að ofan. Útifatnaður þarf að taka mið af síbreytilegri íslenskri veðráttu og þurfa börn ykkar hlý föt meðferðis til útiveru.

Vinsamlega merkið allan útifatnað og skó barnanna.

Þurrkskápar: Hver heimastofa á sinn þurrkskáp sem staðsettir eru við inngang leikskólans, tveir á suðurgangi og tveir á norðurgangi. Hvetjum við foreldra/forráðamenn að kíkja í þurrkskápinn í lok dags til að ganga úr skugga um að fatnaður barnsins sé til staðar og tilbúin fyrir útiveru daginn eftir.


© 2016 - 2023 Karellen