Karellen

Skarðshlíðarleikskóli var formlega opnaður 9. ágúst 2019. Leikskólinn rúmar fjórar heimastofur/deildir, Hraun, Hól, Lyng og Laut, þar sem gert er ráð fyrir að um 80 börn geti dvalið samtímis. Heimastofurnar hringa sig um sameiginlega matstofu sem kölluð er Hreiður, en þar borða börn af öllum heimastofum saman. Hreiður er einnig nýtt sem íþróttasalur. Listalundur er listasmiðjan okkar kölluð, Holt hýsir mjög rúmgott sérkennsurými og skrifstofu sérkennslustjóra og í Hamri er að finna skrifstofur, fundaherbergi, undirbúningsherbergi og fleira fyrir starfsfólk. Leikskólinn deilir húsnæði með grunnskóla, tónlistarskóla og íþróttahúsi sem býður upp á möguleika á miklu samstarfi og fjölbreyttum leiðum til náms og sköpunar. Leikskólinn starfar samkvæmt lögum um leikskóla frá árinu 2008. Hann er rekinn af Hafnarfjarðarbæ og hefur Mennta- og lýðheilsusvið eftirlit með fag- og rekstrarlegum þáttum starfsins. Leikskólastarfið byggir á lögum um leikskóla og Aðalnámskrá leikskóla frá 2011. Aðalnámskrá leikskóla er fagleg stefnumörkun um uppeldis- og menntunarhlutverk leikskólans. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og lögum samkvæmt uppeldis og menntastofnun þar sem börn læra og þroskast í gegnum leik.

Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi barna sinna en leikskólastarfið er viðbót við það uppeldi sem börnin fá á heimilum sínum. Leikskólinn er fyrir öll börn, óháð andlegu og líkamlegu atgervi, menningu og trú.

Meginmarkmið Skarðshlíðaleikskóla er að vinna í anda fjölgreindakenningu Howards Gardner, Uppeldi til ábyrgðar og er áhersla lögð á að við séum öll, börn, foreldrar og starfsmenn, hluti af lærdómssamfélagi. Unnið er markvisst með Vináttuverkefni Barnaheill, en það er forvarnarverkefni gegn einelti. Áhersla er á læsi í samræmi við læsisstefnu Hafnarfjarðar, Lestur er lífsins leikur. Skarðshlíðarleikskóli leggur áherslu á lýðræði, frumkvæði og lífsgleði í daglegum samskiptum og að börnin læri í gegnum leik og flæðandi starf. Það er okkar trú að leikurinn sé besta námsleið barna.

Leikskólinn lokar að jafnaði í fjórar vikur á sumrin vegna sumarleyfa og að auki er hann lokaður í fimm daga yfir skólaárið vegna skipulagsdaga.

Í Skarðshlíðarleikskóla eru börnum og foreldrum boðið upp á þátttökuaðlögun en hún byggist á þeirri hugmynd að börn og foreldrar séu saman að læra að vera í leikskólanum, en ekki á að börnin séu að venjast því að vera aðskilin foreldrum sínum. Okkur þykir mjög mikilvægt að strax frá upphafi leikskóladvalar myndist góð tengsl, traust og samvinna á milli starfsfólk, foreldrar og barna. Mikilvægt er að foreldrar og starfsfólk upplýsi hvort annað um atvik og breytingar sem geta haft áhrif á líðan barna svo hinir fullorðnu geti í samvinnu brugðist rétt við barninu.

Allt starfsfólk leikskólans er bundið þagnarskyldu og þær upplýsingar sem starfsmaður fær um barnið eru trúnaðarmál. Þagnarskylda helst þó látið sé af starfi.



© 2016 - 2023 Karellen